52 - Oss minni sérhver morgunn á
Oss minni sérhver morgunn á
Guðs mildu föðurnáð,
er sveipar myrkrum sólu frá
og sendir geisla' um láð,
og sendir geisla' um láð.
Oss minni fögur morgunsól
á morgunsól þá fyrst,
er skín hjá Drottins dýrðarstól:
vorn Drottin, Jesú Krist,
vorn Drottin, Jesú Krist.
Oss minni ljúfur morgunblær
á mætan sannleik þann,
að andi Guðs er æ oss nær,
þótt ei vér finnum hann,
þótt ei vér finnum hann.
Oss minni sérhver morgunn nýr
á mildi', er aldrei dvín,
og sorgarmyrkrið svart að flýr,
er sól Guðs líknar skín,
er sól Guðs líknar skín.
Oss minni sérhver morgunstund
á miskunn Drottins þá,
er lætur eftir banablund
oss betri morgun sjá,
oss betri morgun sjá.
Höfundur lags: N. Herman
Höfundur texta: Valdimar Briem