43 - Dagur líður
Dagur líður, fagur, fríður,
flýgur tíðin í aldaskaut.
Daggeislar hníga, stjörnurnar stíga
stillt nú og milt upp á himinbraut.
Streymir niður náð og friður,
nú er búin öll dagsins þraut.
Líður dagur, fríður, fagur,
færist nær oss hin dimma nótt,
stjörnurnar loga bláum á boga,
benda þær andanum vært og hljótt
til að dreyma' um hærri heima,
hold á fold meðan blundar rótt.
Dagur fríður, fagur líður.
Föður blíðum sé þakkargjörð.
Glatt lét hann skína geislana sína,
gæskan hans dvín ei, þó sortni jörð.
Góðar nætur, góðar nætur
gefast lætur hann sinni hjörð.
Eyðist dagur, fríður, fagur,
fagur dagur þó aftur rís:
Eilífðardagur ununarfagur,
eilíf skín sólin í Paradís.
Ó, hve fegri' og yndislegri
unun mun sú, er þar er vís.
Höfundur lags: A. P. Berggreen
Höfundur texta: Valdimar Briem