8 - Guð faðir, þín hátign

Guð faðir, þín hátign, þitt heilaga vald
er hulið í dýrð bak við geislanna fald,
frá ljóma þíns auglits. Þitt eilífa ráð
fá englarnir hæstu ei skynjað né tjáð.

En með þeim vér tignum þín voldugu verk
og vitum að hönd þín er gjöful og sterk,
að hjálp þín ei brestur né geigar þín gjörð,
að gæska þín umvefur himin og jörð.

Þú gefur oss lífið, vér lifum í þér,
þín líkn er í öllu, jafnt hulin sem ber.
Þótt falli vor heimur sem fis eða strá
þín föðurnáð varir og breytast ei má.

Svo hefur þú birt oss þitt blessaða vald,
svo brosir þín mynd gegnum himnanna tjald,
því sonur þíns kærleika, Kristur, er hér,
hann kom þig að birta og gefa oss þér.

Og trúin þig sér er vér tilbiðjum hann
sem tók á sig duft vort og frelsið oss vann,
þá vitnar þinn andi að vald þitt og ráð
er viska og trúfesti, elska og náð.


Höfundur lags: Lag frá Wales 1839
Höfundur texta: Sigurbjörn Einarsson