37 - Indælan, blíðan

Indælan, blíðan, blessaðan, fríðan
bústaðinn þinn,
Drottinn minn, þrái' eg, þar kýs að fái' eg
þrátt komið inn.
Lifandi Guð, í þíns helgidóms hús
hugurinn stefnir, til lofgjörðar fús.

Alheimi kunnur algæsku brunnur
ertu, Guð, hreinn,
fuglum þú skýli fær, svo þeir hvíli
fullrótt hver einn.
Húsið þú opnar mér heilaga þitt,
hjartað svo friðarins njóti þar mitt.

Hingað að snúa, hér inni' að búa
hagsæld er mest,
tungunni' er kæti, Guð ef hér gæti
göfgað sem best.
Sæll er sá maður, sem fögnuð þinn fær
fundið, þú Guðs barna lofsöngur skær.

Þúsundir daga, holdið er haga
hyggur best sér,
geta líkst eigi Guðs einum degi,
glaðir þá vér
lyftum í hæðir með heilögum söng
hjörtum úr veraldar umsvifaþröng.

Heimsdrottna' að vitja heimboðs og sitja
háborð við mitt,
einskis það met ég mót því, ef get ég
musteri þitt
fengið að sækja. Þótt sæti' eg þar neðst,
sit ég þér nærri, minn Drottinn, og gleðst.


Höfundur lags: V. Sanne
Höfundur texta: Helgi Hálfdánarson