441 - Þú enn ert svo lítill
Þú enn ert svo lítill, þú enn ert svo smár,
en enn þó þú sért ekki' í loftinu hár,
ver trúr yfir litlu, ver blíður sem barn,
þá blessar þig faðirinn miskunnargjarn.
Þú enn átt svo lítið, þú enn átt svo fátt,
það enn er svo lítið, sem ráða þú mátt,
ver trúr yfir litlu, það vonandi vex
og verða til hags kann þér ómetanlegs.
Þú enn veist svo lítið, þú enn eygir skammt,
en aukist þér þekkingin daglega samt,
ver trúr yfir litlu og lær þú sem best,
en lærðu það einkum, sem ríður á mest.
Þú enn ert svo lítill, þú enn ert svo smár,
en óskar, að verðir þú mikill og hár.
Ver trúr yfir litlu, þá lagast það kann,
að láti þig Guð verða dugandi mann.
Höfundur lags: Höf. ókunnur
Höfundur texta: Valdimar Briem