383 - Er þér helgust

Er þér helgust ósk, að Kristur
eigi dvöl í hjartans rann?
Er þér trúin afl að lifa
aðeins fyrir kærleikann?
Ertu laus við alla vantrú,
ágirnd, hroka, deilumál?
Er þín stefna upp til himins?
Andsvar gefðu hreint, mín sál.

Hvert snýr hugur þinn í þrautum
þennan gegnum táradal?
Er þín þrá að eiga fjársjóð
uppi´ í björtum himnasal?
Upp í ljósið húms úr heimi
hugsun ávallt stefni þín.
Líttu æ í þrautum þangað,
þar sem unaðssólin skín.

Viltu leggja‘ í Herrans hendur
hvað, sem fellur þér í skaut,
unaðsleið hvort áttu‘að ganga
eða sára þyrnibraut?
Viltu hafa‘ í hjarta þínu
Herrans nafn og boðorð skráð?
Er þér gleði, að þau verði
aldrei þaðan burtu máð.

Er mitt hjarta inni Drottins,
akur hreinn og gróinn hans?
Læt ég bjart í breytni minni
blakta merki kærleikans?
Berst frá mér til bræðra minna
birta, sem ei verður leynt?
Get ég nú mætt Guði mínum?
Gefðu, sál mín, andsvar hreint.


Höfundur lags: O. U. Linnereu
Höfundur texta: Jón Jónsson frá Hvoli