372 - Mín gæfa byggð á Guði er

Mín gæfa byggð á Guði er,
hann gleymir aldrei sínum.
Í umsjón hans er óhætt mér
og öllum högum mínum.
Hann horfir sínum hástól frá
á hvað sem skeður jörðu á,
á ljóss og húmsins línum.

Í vitund hans frá eilífð er
minn allur falinn hagur.
Á lífsbraut dimmri lýsir mér
hans líknar röðull fagur.
Ei tárast ber í tímans þröng,
í trúnni finnst ei stundin löng,
uns sæll rís dýrðar dagur.

Hann þekkir mínar þarfir vel,
úr þeim hann líka bætir.
Ég bað, og fann hans föðurþel,
sem faðir hann mín gætir.
Hann seður mig af sannri náð,
hans sannleiksorð, í lengd og bráð,
mig huggar, hvað sem mætir.

Það er ei gull né upphefð heims,
sem æðsta gildið hefur,
Því metorð, völd og safnið seims
oft sannleiksþekking tefur.
En trúin sanna, síð og ár,
þó svíði und og falli tár,
hið æðsta gildi gefur.

Á Guði byggð er gæfan mín,
hann getur brugðist eigi,
hans ást sem sól mér ávallt skín
á ævi minnar vegi.
Um alheims rúm, hvað rómað fær,
hans rómi lofgjörð, fjær og nær,
á hverjum, hverjum degi.


Höfundur lags: Úr söngbók Klugs 1535
Höfundur texta: Jón Jónsson frá Hvoli