323 - Ver hjá oss, Drottinn
Ver hjá oss, Drottinn, nú í dag,
dýrast þér flytjum bænalag,
eyra þitt hneyg af himni' að jörð
heyrandi vora bænargjörð.
Hús þetta fylli friður þinn,
föðurást mild og sannleikinn,
svo þjökuð hjörtu finni fró,
friðlausar sálir náð og ró.
Hér þá vér boðum boðskapinn,
blessaðan lausnar máttinn þinn,
vektu oss líf og ljós í sál,
leiftrandi hjörtum trúarbál.
Gjör þetta hús þinn helgidóm,
heyr vorrar bæna gjörðar róm,
návist þín færi líkn og lið,
láttu hér opnast himins hlið.
Höfundur lags: H. Baker
Höfundur texta: Jón Hj. Jónsson