20 - Sé Drottni lof og dýrð
Sé Drottni lof og dýrð,
hans dásemd öllum skýrð,
hann lofi englar allir
og æðstu ljóssins hallir,
hann lofi hnatta hjólin
og heiðri tungl og sólin.
Hann lofi líf og hel
og loftsins bjarta hvel,
hann lofi lögmál tíða,
sem ljúft hans boði hlýða
og sýna veldis vottinn,
ó, veröld, lofa Drottin.
Þér vötn og víður sjór,
þér vindar, hagl og snjór,
þér fjallabyggðir bláar,
þér bjarkir prýðiháar,
þú grund með grösum sprottin,
ó, göfgið, lofið Drottin.
Hver þjóð um lög og láð,
ó, lofið Drottins náð,
þér glöðu, hraustu, háu,
þér hrelldu, veiku, lágu,
þér öldnu með þeim ungu,
upp, upp með lof á tungu.
Með öllum heimsins her
þig, Herra, lofum vér
af innsta ástar grunni
með öndu, raust og munni.
Vort hjarta bljúgt sig hneigir
og hallelúja segir.
Höfundur lags: Þýskt lag
Höfundur texta: Matthías Jochumsson