253 - Ó, blessuð stund
Ó, blessuð stund, er börn Guðs fá að skoða
hið bjarta, þráða fyrirheitna land,
sem hér þau líta vafið vonarroða.
Þau vonarinnar saman tengja band.
Ó, blessuð stund, er, börn Guðs fá að heyra
Guðs blíðu raust: Ó, komið sæl til mín.
Nú skal ei yður ánauð framar reyra
frá eldraun leyst og sorg og hugarpín.
Ó, blessuð stund er villudimman dvínar,
og daginn engin framar hylja ský,
og Guðs í bústað eftir hretin hlýnar,
þeim hretviðrunum lengi mæddust í.
Ó, blessuð stund, er ljóss í sölum ljómar
Guðs ljósið skært og hinsta' er stigið fet
og söngur skær hjá himinsveitum hljómar,
og hryggð ei mæðir neinn, sem áður grét.
Ó, Guð, minn Guð, hjá börnum þínum búðu,
svo beygt þau geti ekki' af réttri leið,
með þinnar náðar hendi að þeim hlúðu,
og hugarstyrk þeim gef í lífi' og deyð.
Höfundur lags: A. P. Berggreen
Höfundur texta: Jón Jónsson frá Hvoli