247 - Í ljóssins veldi

Í ljóssins veldi ljómar ennþá dagur,
er ljóssins sprota sólin slær á ský.
Í framsýn eygist æðri’ og betri hagur,
er andinn lyftist hæða til á ný.

Í ljóssins veldi, leiðum mannlífs hærra,
hann leiðir hugann efnisstriti frá,
þar opnast sviðið ótal sinnum stærra
en augu vor í lífsins þokum sjá.

Í ljóssins veldi, dýrðar dagur kæri,
þig Drottinn gaf og krýndi blessun með.
Þótt grúfi húm, þinn geisli unaðsskæri
í gegnum lífið skín að hinsta beð.

Að láta hugann hvíla Guðs í friði
á helgri stund er sálum næring best,
og gegnum húmið hér á jarðar sviði
í helgum ljóma æðri veröld sést.

Í vændum er sú vist í ljóssins sölum,
er verður blessuð hvíld um alla tíð
þeim öllum, sem í dimmum jarðar dölum
á Drottins vegum gengu fyrr og síð.


Höfundur lags: Salómon Heiðar
Höfundur texta: Jón Jónsson frá Hvoli