116 - Ég heyrði Jesú himneskt orð

Ég heyrði Jesú himneskt orð:
"Kom, hvíld ég veiti þér.
Þitt hjarta' er mætt og höfuð þreytt,
því halla' að brjósti mér".

Ég kom til Jesú sár af synd,
af sorg, af þreytu' og kvöl,
og nú er þreytta hjartað hvílt
og horfið allt mitt böl.

Ég heyrði Jesú ástarorð:
"Kom, eg mun gefa þér
að drekka þyrstum lífs af lind,
þitt líf í veði er".

Ég kom til Jesú. Örþyrst önd
þar alla svölun fann,
hjá honum drakk ég lífs af lind.
Mitt líf er sjálfur hann.

Ég heyrði Jesú himneskt orð:
"Sjá, heimsins ljós ég er.
Lít þú til mín, og dimman dvín
og dagur ljómar þér".

Ég leit til Jesú, ljós mér skein,
það ljós er nú mín sól,
er lýsir mér um dauðans dal
að Drottins náðarstól.


Höfundur lags: Höf. ókunnur
Höfundur texta: Stefán Thorarensen