60 - Heilagur, heilagur

Heilagur, heilagur, heilagur allsherjar Drottinn!
Himinn og jörðin um tign þína’ og dýrð bera vottinn.
Öld eftir öld englanna þúsunda fjöld
lofar þig, lifandi Drottinn

Eilífur, eilífur, eilífur tímana faðir!
Aldrei þú breytist um tímanna hverfandi raðir.
Öld eftir öld áranna' daganna fjöld
lofar þig, ljósanna faðir!

Alvaldur, alvaldur, alvaldur konungur hæða!
Upphimins sólir, þig tignandi braut sína þræða.
Himnanna tjöld, heimanna, geimanna fjöld
lofa þig, lávarður hæða!

Lifandi, lifandi, lifandi skaparinn heima!
Lifandi verurnar síst skyldu dýrðina gleyma.
Lifanda fjöld, lífsteiknin margþúsundföld
lofa þig, lífgjafinn heima.

Náðugur, náðugur, náðugur miskunnarfaðir!
Náð þú oss veitir, þér frelsi vort þökkum vér glaðir.
Barnanna fjöld, brotanna laus við öll gjöld,
lofa þig, Frelsarans faðir.

Blessaður, blessaður, blessaður faðir á hæðum!
Börnin þín krýnir þú alls konar dýrmætum gæðum.
Öld eftir öld alheimsins margbreytta fjöld
göfgi þig, Guð vor á hæðum.


Höfundur lags: H. Rung
Höfundur texta: Valdimar Briem

Hefur þú athugasemdir eða tillögur? Sendu okkur póst hér!

© 2020-2024 Kirkja sjöunda dags aðventista
Höfundarréttur texta í eigu viðeigandi höfunda og útgáfuaðila