433 - Í öllum löndum lið sig býr

Í öllum löndum lið sig býr
í Ijóssins tygi skær,
og æskufjör það áfram knýr.
svo ekkert tálmað fær,
sem döggin tær mót himni hlær,
er heilsar morgunroðans blær,
svo skín hin prúða fylking fríð
af frjálsum æskulýð.

Í öllum löndum sama söng
á sér hinn ungi her,
um sama fána' og fánastöng
þeir fylkja allir sér,
og allir sjá hið sama hlið,
hin sama dýrð þeim blasir við,
í einni von, í ást og trú
þeir áfram stefna nú.

Og Jesús undan öllum fer,
þeir eru' hans heiðurssveit.
Til konungs þeir hann kusu sér,
hann kærleiks þáði heit,
svo vöxt og afl fær æsku þjóð
við alheims sólar mildu glóð,
í skugga krossins skjól og hlíf,
í skauti Jesú líf.

Þú æskuskari' á Íslandsströnd,
þú ert í flokki þeim,
er sækir fram í sólarlönd
með sigri' að komast heim,
rís upp með fjöri, stíg á stokk
og streng þess heit að rjúfa' ei flokk,
uns sigri' er náð og sagan skráð,
er sýnir Guðs þíns ráð.


Höfundur lags: Sænskt þjóðlag
Höfundur texta: Friðrik Friðriksson

Hefur þú athugasemdir eða tillögur? Sendu okkur póst hér!

© 2020-2024 Kirkja sjöunda dags aðventista
Höfundarréttur texta í eigu viðeigandi höfunda og útgáfuaðila