422 - Hvort skilur þú, er skyldan kallar?

Hvort skilur þú er skyldan kallar
og skylduverkin bíða þín
á akri Guðs? Hvort viltu vaka
og vinna meðan sólin skín?

Er Guð þig kallar, kom þú skjótt,
ó, kom, því tíminn líður ótt,
og gakk þann veg er Guð þér býður,
og gerðu þína skyldu fljótt.


Hvort sér þú ei, að sálir berast
hér sofandi að feigðarós?
Ó, reyndu þær að verma' og vekja
og vísa þeim á heimsins ljós.

Hvort veist þú ei, að kvíðinn kvelur
og kraminn hjörtu friðinn þrá?
Ó, segðu þeim, hvar fannst þú friðinn
og fékkstu bætur meinum á.

Hvort er svo hljótt í hjarta þínu,
að heyrt þú getir andans raust,
er vísar þér á verkahringinn,
hvar vinna áttu tafarlaust?


Höfundur lags: E. Eklund
Höfundur texta: Sigurbjörn Sveinsson

Hefur þú athugasemdir eða tillögur? Sendu okkur póst hér!

© 2020-2024 Kirkja sjöunda dags aðventista
Höfundarréttur texta í eigu viðeigandi höfunda og útgáfuaðila