385 - Ég flý til þín

Fagnandi eins og fangi úr þraut
flý ég til þín, flý ég til þín.
Til þín í ljósið lífsins á braut,
lausnari minn til þín.
Í þína auðlegð eymd minni frá,
ótta og kvíða, huggun að fá.
Friðvana sál í föðurins skaut,
flý ég, ó Guð, til þín.

Frá minni sálar fátækt og rýrð
flý ég til þín, flý ég til þín.
Til þín í krossins dásemd og dýrð,
Drottinn, minn Guð, til þín.
Í þína sælu sorg minni frá,
sjúkleik og stríði, lækning að fá.
Þú ert mitt ljós, í ljósi þú býrð.
Líf mitt, ég flý til þín.

Líkt eins og fugl af fjarlægri strönd
flý ég til þín, flý ég til þín.
Hærra og hærra, lífsins á lönd,
lausnari minn til þín.
Til þinnar elsku örvilnun frá,
angist og neyð, í sælu þér hjá.
Frelsaður, laus við fjötra og bönd
flý ég, ó, Guð, til þín.

Frá hverri þraut, úr fjarlægum geim,
flý ég til þín, flý ég til þín.
Glaður til föðurhúsanna heim,
Hærra, minn Guð, til þín.
Héðan frá allri ánauð og sorg
inn til þín friðar ljóssins í borg,
feginn og sæll að fögnuði þeim,
flý ég, ó Guð, til þín.


Höfundur lags: G. C. Stebbins
Höfundur texta: Pétur Sigurðsson

Hefur þú athugasemdir eða tillögur? Sendu okkur póst hér!

© 2020-2024 Kirkja sjöunda dags aðventista
Höfundarréttur texta í eigu viðeigandi höfunda og útgáfuaðila