378 - Vor feðra trú

Vor feðra trú enn tendrar ljós
í trúum hjörtum eins og fyrr,
þrátt fyrir ofsókn, bál og brand
hún bugast ei né stendur kyrr.
Feðranna trú á bjargi byggð,
vér bindum við þig ævitryggð.

Vér sjáum heilagt hetjulið,
sem hyllti þig með lífi' og sál.
Þeim ægði' ei hatur, ofsókn, stríð
né eldsins kvöl, né banastál.
Feðranna trú á bjargi byggð,
vér bindum við þig ævitryggð.

Vér sjáum menn, er sokknir djúpt
í syndanauð, en fyrir þig
samt risu' á fætur, frjálsir menn
og fundu lífsins eina stig.
Feðranna trú á bjargi byggð,
vér bindum við þig ævitryggð.

Þú ert hin mikla eining sú,
sem eina gjörir kirkju' á jörð,
og milli alda ertu brú
og allra þjóða sáttargjörð.
Þú niðja vorra verður skjól,
uns veröld ferst og slokknar sól.

Þú feðra vorra forna trú,
þú frelsis stólpi' á vorri tíð,
þú sannleiksmerki, sigurtákn
og sanntrúaðra huggun blíð.
Aldanna trú, á bjargi byggð,
vér bindum við þig ævitryggð.


Höfundur lags: H. F. Hemy
Höfundur texta: Friðrik Friðriksson

Hefur þú athugasemdir eða tillögur? Sendu okkur póst hér!

© 2020-2024 Kirkja sjöunda dags aðventista
Höfundarréttur texta í eigu viðeigandi höfunda og útgáfuaðila