279 - Hve fagrir eru fætur þínir

Hve fagrir eru fætur þínir,
sem friðinn boðar hér á jörð,
sem öðrum líkn og liðsemd sýnir
og læknar þeirra meinin hörð.
En hvort á þetta heima' um mig?
Hvort hef ég gengið kærleiksstig?

Nei, margoft fór ég villur vega
og villtist út á aðra braut.
Þótt ferðin gengi farsællega,
á fótum þó ég saurgast hlaut.
Má ég þá koma óhreinn inn?
Mig atað hefur veröldin.

En þú, sem forðum þvoðir, fætur
á þínum sveinum, Jesús minn,
þú einnig mína laugað lætur,
að leyfist mér að komast inn.
Ó, hvílíkt lítillæti af þér,
því læging er að þjóna mér.

Hvort skyldi ég það auri ata,
sem endurlausnari minn þvær?
Og mun ég nokkurn mega hata,
sem miskunn Drottins reyna fær?
Nú vil ég elska þá og þvo,
fyrst þú, minn Drottinn, gjörðir svo.

Þú einn varst hreinn, af himnum sendur,
þú heimsins syndir burtu þvær.
Þvo fætur mína, höfuð, hendur,
en hjartað einkum, bróðir kær,
og svo sem unnt er sömu skil
ég sýna mínum bræðrum vil.


Höfundur lags: Frá um 1700
Höfundur texta: Valdimar Briem

Hefur þú athugasemdir eða tillögur? Sendu okkur póst hér!

© 2020-2024 Kirkja sjöunda dags aðventista
Höfundarréttur texta í eigu viðeigandi höfunda og útgáfuaðila