274 - Í anda Kristur kæri

Í anda, Kristur kæri,
ég kem að Jórdansá,
svo þar ég fái færi,
Guðs furðuverk að sjá
og undrast undur það,
að þú, hinn helgi' og hreini,
í heimi syndlaus eini,
um skírnar biður bað.

Þú, helgur himinblómi,
hví hreinsun girnist þú?
þú, alheims ljós og ljómi,
hví laugast viltu nú?
Þú, blessuð Guðs mynd blíð
Guðs eilíft orðið dýrast,
hví óskar þú að skírast
með sekum syndalýð?

Þú vilt, að vötn í heimi
svo vígist öll af því,
að guðlegt afl þau geymi,
er gjört fær hjörtu ný.
Þá orðið eilíft sté
í vatn, það bar þess vottinn,
að vatn og orð þitt, Drottinn,
oss laug til lífsins sé.

Þú baðið besta hefur
oss búið, Jesús kær,
þar ástarörmum vefur
þú oss og hreina þvær,
að Guðs börn verðum vér
þú vilt vér skulum skína
og skærleiks mynd fá þína
á landi lífs hjá þér.

Þú gjörðir oss að greinum,
ó, Guðs son hár, á þér,
æ, halt oss sjálfum hreinum,
að hlotið fáum vér
um síðir sælu þá,
á akri lífsins landa
við lífsins vötn að standa
þér, lífstréð helga, hjá.


Höfundur lags: Þýskt lag
Höfundur texta: Helgi Hálfdánarson

Hefur þú athugasemdir eða tillögur? Sendu okkur póst hér!

© 2020-2024 Kirkja sjöunda dags aðventista
Höfundarréttur texta í eigu viðeigandi höfunda og útgáfuaðila