191 - Guðs orð er ljós

Guðs orð er ljós, er lýsir
í lífsins dimmu hér,
og ljúfur leiðarvísir
það lífs á vegum er,
það lýsa látum vér
að sannleiksbraut vér sjáum
og sælumarki náum
með ljóssins helgum her.

Guðs orð er sverð, er særir
og sundur hjörtun sker,
um synd og sekt það kærir
og sakir á oss ber,
en oss það einnig ver,
með því gegn veröld verjumst
og vonsku móti berjumst
Það sverð oss sigur lér.

Guðs orð er lind, er líknar
og lækning veikum tér,
það syndarana sýknar
og svölun hjörtum lér.
Ó, hversu indælt er
það blessað orð að eiga
og ætíð finna mega
þar svölun handa sér.

Guðs orð er raust, er rómar,
hve réttvís Drottinn er,
en einnig blítt það ómar,
að aldrei náð hans þver.
Það oss þann boðskap ber,
að Guð oss fyrirgefur,
að Guðs oss búið hefur
á himnum hús með sér.

Guðs orð er líf og andi
með undrakraft í sér,
Guðs orð er ævarandi,
þá annað gjörvallt þver.
Þann kjörgrip kjósum vér
í hreinu hjarta geymum
það hnoss og aldrei gleymum,
að best það arfleifð er.


Höfundur lags: Þýskt lag
Höfundur texta: Valdimar Briem

Hefur þú athugasemdir eða tillögur? Sendu okkur póst hér!

© 2020-2024 Kirkja sjöunda dags aðventista
Höfundarréttur texta í eigu viðeigandi höfunda og útgáfuaðila