149 - Kirkjan stríðandi

Kirkjan stríðandi
kallar líðandi:
Kemur endirinn alda.
Lífs sólin ljómar,
lúðurinn hljómar.
Drottinn dóminn mun halda.

Djúpt í gröfunum,
djúpt í höfunum
kynslóð liðinna lýða,
blíðlega blundar,
bíður hans fundar,
bíður frelsarans fríða.

Sól upp rennandi
brunar brennandi
fram úr ljósfögrum lundi.
Kristur þá kallar,
kynslóðir allar vakna
værum af blundi.

Upp úr gröfunum,
upp úr höfunum
látnir lifandi rísa,
öllum frá öldum
ótal margföldum,
sigri lífsins þeir lýsa.

Dæm mér, dómandi,
dýrðar-ljómandi
lífsins ljóskrónu sanna.
Lífsstundir linna,
láttu mig finna
landið lifanda manna.


Höfundur lags: Þjóðlag frá Sikiley
Höfundur texta: Valdimar Briem

Hefur þú athugasemdir eða tillögur? Sendu okkur póst hér!

© 2020-2024 Kirkja sjöunda dags aðventista
Höfundarréttur texta í eigu viðeigandi höfunda og útgáfuaðila