106 - Litla, fagra stjarna

Litla, fagra stjarna, sem ég sé í kvöld,
sannarlega hefur þú ei verið köld,
þegar stjarnan Betlehems svo björt og hrein
beint í augu vitringanna gömlu skein.

Sástu þeirra gjafir, sem þeir gáfu þá,
góðu, ungu barni, sem í jötu lá?
Sástu, þegar tilbeiðsluna tjáðu þeir
tignarlega barninu, sem aldrei deyr.

Heyrðir þú, hve hrelldra mæðra hópur grét,
Heródes þá börnin þeirra deyða lét?
Þegar Jósef burt með barnið flýði fljótt,
flóttamanni lýstir þú um heiða nótt.

Litla stjarna, sástu Drottins djúpu sár,
dásamlega fórnarstarf og heilög tár?
Allt um Jesú vil ég vita, sem þú sást.
Sál mín faðmar hann í trú og von og ást.


Höfundur lags: Höf. ókunnur
Höfundur texta: Höf. ókunnur

Hefur þú athugasemdir eða tillögur? Sendu okkur póst hér!

© 2020-2024 Kirkja sjöunda dags aðventista
Höfundarréttur texta í eigu viðeigandi höfunda og útgáfuaðila